Hvers vegna ætti að nota víddir?
Víddir notaðar/færðar inn í færslubókum og fylgiskjölum
Hvað er vídd og víddargildi?
Víddir eru gögn sem hægt er að bæta við færslur sem nokkurs konar merki þannig að kerfið geti flokkað saman færslur með svipaða eiginleika og auðvelt sé að sækja þessa flokka til að nota við greiningar. Hægt er að nota víddir alls staðar í kerfinu á færslum í færslubókum og fylgiskjölum sem og áætlunum. Hugtakið vídd er notað til að lýsa framkvæmd greiningar. Tvívíð greining gæti til dæmis verið sala eftir svæðum. Með því að nota fleiri en tvær víddir þegar færsla er stofnuð er hins vegar hægt að framkvæma flóknari greiningar, til dæmis sala á hverja söluherferð á hvern viðskiptamann á hvert svæði.
Í hverri vídd getur verið ótakmörkuð röð víddargilda sem eru undireiningar í þeirri vídd. Til dæmis er hægt að skipta vídd sem kallast Deild í deildirnar Sala, Stjórnun og svo framvegis. Þessar deildir eru víddargildi. Víddir og víddargildi eru skilgreind af notandanum og ótakmörkuð sem þýðir að hægt er að stofna víddir sem eru sniðnar að þörfum og viðskiptaferlum fyrirtækisins. Sumar víddir eins og reikningsnúmer og dagsetning eru hins vegar þegar skilgreindar í kerfinu.
Hvers vegna ætti að nota víddir?
Reikningar fyrirtækisins samanstanda af mörgum færslum með margskonar uppruna og tengjast fjölda aðgerða innan fyrirtækisins. Oft er þörf á því að taka saman yfirlit, upplýsingar og greiningar sem eru útdrættir úr ársreikningum fyrirtækisins. Hægt er að búa til þessa útdrætti með því að nota einstakar víddir eða samsetningar af víddum.
Ef vídd sem kallast Deild er sett upp og sú vídd ásamt víddargildum síðan notuð þegar færsla er bókuð er síðar hægt að sækja upplýsingar um hvaða vörur hafa verið seldar í hvaða deildum til dæmis. Hafi fleiri en ein vídd verið notuð í bókuðum færslum getur notandinn búið til ýtarlegri greiningu á aðgerðum fyrirtækisins. Til dæmis getur ein sölufærsla falið í sér upplýsingar um margar víddir eins og á hvaða reikning varan hafi verið bókuð, hvar varan var seld, hver seldi hana og hvers konar viðskiptamaður hafi keypt hana.
Með því að nota víddir er hægt að greina þróun og bera saman ýmsa eiginleika í fjölda færslna. Aðgerðin greiningaryfirlit nýtist sérlega vel í þessum tilgangi en einnig er hægt að nota afmarkanir, fjárhagsskemu og skýrslur til að búa til upplýsandi víddargreiningar.
Einnig er hægt að nota víddir til að styðja við viðskiptareglur með því að hafa áhrif á það hvernig notandinn getur sameinað víddir og hvernig víddir séu bókaðar. Þetta kann að vera gagnlegt ef ákveðnar deildir hafa ekki heimild til að nota tiltekna reikninga eða selja ákveðnum viðskiptamönnum. Nánari upplýsingar um þetta eru í Víddasamsetningar og Sjálfgefnar víddir .
Tegundir vídda
Hægt er að skilgreina eins margar víddir og þörf er á í fyrirtækinu og hægt er að skilgreina ótakmarkaðan fjölda víddargilda í hverri vídd. Hægt er að nota allar víddir sem notandinn skilgreinir í færslubókum og fylgiskjölum sem og í víddatengdum skýrslum og keyrslum.
Einnig má tengja viðbótarvirkni við sumar víddir eins og útskýrt er í eftirfarandi:
Tegund Víddar | Lýsing |
---|---|
Altækar víddir | Hægt er að velja tvær altækar víddir úr víddunum sem þegar hafa verið settar upp. Víddirnar sem valdar eru sem altækar víddir eru tiltækar alls staðar í kerfinu. Það þýðir að hægt er að nota altækar víddir sem afmarkanir á fjárhagsfærslum ásamt öllum skýrslum, fjárhagsskemum og keyrslum. Altæku víddirnar eru síðan sjálfkrafa tiltækar til notkunar sem flýtivísun í vídd á færslulínum og fylgiskjalahausum í kerfinu. Altækar víddir eru alla jafna mest notuðu og mikilvægustu víddir fyrirtækisins þar sem þær eru tiltækar alls staðar í kerfinu. Hægt er að breyta víddunum sem skilgreindar eru sem altækar víddir með keyrslu sem uppfærir allar færslur. Þetta ferli getur tekið nokkurn tíma. |
flýtivísanir í víddir | Með flýtivísun í vídd getur notandinn fært víddir og víddagildi beint í línur í færslubókum og sölu- og innkaupaskjölum. Til dæmis getur hver einstakur notandi sett upp innkaupaskjal sem hentar ákveðnum þörfum þeirra. Á flýtiflipanum Línur er smellt á Aðgerðir, Velja dálka og þær flýtivísanir í vídd sem mikið eru notaðar í því tiltekna skjali valdar til sýningar á fylgiskjalslínunni. Hægt er að tilgreina allt að átta flýtivísanir í vídd. Kerfið skilgreinir að fyrstu tvær flýtivísanirnar séu sömu víddir og notaðar eru sem altækar víddir. Hægt er að velja hinar sex flýtivísanirnar úr víddunum sem settar hafa verið upp í fyrirtækinu. Einnig er hægt að breyta þessum sex flýtivísunum í víddir reglulega í samræmi við þarfir fyrirtækisins. Nota þarf sérstakan víddarglugga til að færa inn víddarupplýsingar fyrir víddir sem ekki hafa verið valdar sem flýtivísanir. |
Áætlanavíddir | Þegar áætlun er stofnuð er hægt að skilgreina fjórar víddir fyrir hverja áætlun. Þessar áætlanatengdu víddir kallast áætlanavíddir. Hægt er að velja áætlanavíddir fyrir hverja áætlun úr víddunum sem þegar hafa verið settar upp. Hægt er að nota áætlanavíddir til að afmarka áætlanir og til að bæta víddaupplýsingum við áætlanafærslur. |
Þegar valið er að vídd sé altæk, í flýtivísun eða áætlun, endurnefnir kerfið sjálfkrafa alla reiti sem nota þá víddartegund með fyrirsögninni sem færð hefur verið inn í töflunni Vídd fyrir víddina sem er valin.
Þó er gott að hafa í huga að í skjáhjálpinni er haldið áfram að nota almennu heitin yfir víddartegundirnar, til dæmis kóta altækrar víddar 1 í staðinn fyrir það kótaheiti víddarinnar sem skilgreint er í fyrirtækinu.
Uppsetning vídda
Skilgreina þarf hvaða víddir og víddargildi eigi að nota í fyrirtækinu.
Einnig ætti að skilgreina víddirnar sem nota á sem altækar víddir og flýtivísanir í víddir. Huga skal vel að því hvaða víddir komi að mestu gagni sem altækar víddir og flýtivísanir í víddir í fyrirtækinu.
Ennfremur er hægt að nota víddareiginleika til að styðja við viðskiptareglur sem notaðar eru í fyrirtækinu. Til dæmis er hægt að skilgreina hvaða víddarsamsetningar eru heimilar í færslubók eða fylgiskjali þannig að tiltekið verkefnisteymi geti ekki bókað ákveðnar útgjaldategundir eða að ekki sé hægt að selja ákveðna vöru á tilteknu svæði. Einnig er hægt að skilgreina sjálfgefnar víddir fyrir reikningstegundir eins og viðskiptamannareikninga eða fyrir einstaka reikninga.
Víddir notaðar/færðar inn í færslubókum og fylgiskjölum
Í færslubókarlínu er hægt að færa inn upplýsingar um færslu eins og reikningsnúmer, viðskiptamannsnúmer og þess háttar. Einnig er hægt að bæta víddaupplýsingum við færslu á sama hátt hafi flýtivísanir í víddir verið settar upp sem reitir í færslubókarlínum.
Að öðrum kosti er hægt að færa víddaupplýsingar inn í víddagluggann með því að smella á Tengdar upplýsingar, Lína, Víddir í færslubók. Gluggann Víddir er annað hvort hægt að nota í stað þess að nota flýtivísunarreiti vídda eða til að færa inn upplýsingar um víddir sem ekki eru skilgreindar sem flýtivísunarvíddir.
Þegar færslubókarfærsla er bókuð bókar kerfið einnig allar víddarupplýsingar.
Hægt er að færa víddarupplýsingar fyrir bæði fylgiskjalslínu og fylgiskjalshaus í fylgiskjali. Hægt er að færa víddargildi fyrir tvær fyrstu flýtivísanirnar beint inn á fylgiskjalshausinn og bæta við frekari víddaupplýsingum fyrir hausinn í glugganum Víddir, til dæmis með því að smella á Tengdar upplýsingar, Tilboð, Víddir í tilboðsskjali.
Hver flýtivísun í vídd getur verið aðgengileg í færslulínum fylgiskjals. Síðan er hægt að færa víddargildi fyrir vídd beint í línuna. Að öðrum kosti er hægt að færa víddarupplýsingar inn í víddagluggann með því að velja Tengdar upplýsingar, Lína, Víddir.
Bæði í fylgiskjalshausnum og línum er annað hvort hægt að nota gluggann Víddir í stað þess að nota flýtivísunarreiti vídda eða til að færa inn upplýsingar um víddir sem ekki eru skilgreindar sem flýtivísunarvíddir.
Þegar fylgiskjal er bókað bókast allar víddaupplýsingar einnig í kerfinu og hægt er að skoða þær í bókaða fylgiskjalinu sem þeim tengjast.
Hafi sjálfgefnar víddir verið skilgreindar fyrir reikninga eða reikningstegundir ákvarðar kerfið sjálfkrafa hvaða víddir og víddargildi eigi að færast í línu eða haus og færir inn þessar upplýsingar jafnframt því að línur eru færðar inn í færslubækur og fylgiskjöl. Upplýsingarnar sem færðar eru inn í kerfinu fara eftir reikningsnúmerum og reikningstegundum sem notandinn færir inn.
Víddir notaðar sem afmarkanir
Hægt er að nota víddir sem afmörkun með ýmsum hætti. Hægt er að afmarka allar fjárhagsfærslur með því að nota víddirnar sem hafa verið skilgreindar sem altækar víddir. Hægt er að afmarka áætlanafærslur með því að nota áætlanavíddir. Ennfremur er hægt að afmarka eftir hvaða vídd sem er með því að nota greiningaryfirlit . Á þann hátt er hægt að greina færslur og stofna upplýsandi skýrslur þar sem safnað er saman víddaupplýsingum úr öllum færslugögnum.
EF víddargildi er í víddaafmörkunarreit eru einungis upphæðir sem byggja á þessum víddargildum í afmörkuðum reitum.
Mest má rita 20 stafi, bæði tölustafi og bókstafi. Eins og með aðrar afmarkanir gilda ákveðnar reglur um það hvernig sameina má víddarafmarkanir. Þessar reglur eru útlistaðar í eftirfarandi dæmum þar sem notuð eru víddargildi fyrir vídd sem notandinn hefur skilgreint sem Deild:
Merking | Dæmi | Meðtalin víddargildi |
---|---|---|
Jafnt og | STJD | Stjórnun |
Millibil | STJD .. FRAML ..FRAML | Frá víddargildinu Stjórnun að víddargildinu Framleiðsla á gildiskótalistanum. Til og með víddargildinu Framleiðsla á víddargildalistanum. |
Annaðhvort eða | STJD|SALA | Víddargildin Stjórnun og Sala |
Og | <STJD&>FRAML | Víddargildi sem eru á undan Stjórnun og á eftir Framleiðsla á gildiskótalistanum. |
Annað en | <>STJD | Öll víddargildi önnur en Stjórnun |
Ofar en | >STJD | Víddargildi sem eru ofar en Stjórnun á gildiskótalistanum |
Hærra en eða jafnt og | >=1200 | Víddargildi með talnagildið 1200 eða hærra |
Lægra en | <1200 | Víddargildi með lægra talnagildi en 1200 |
Einnig má tengja grunnformin saman:
Tegund | Lýsing |
---|---|
2999|2100..2490 | Víddargildiskótinn 2999 og víddargildiskótarnir 2100 til og með 2490 |
..1299|1400.. | Víddargildiskótar til og með 1299 og víddargildiskótar frá 1400 og upp úr, það er, allir víddargildiskótar nema 1300 til og með 1399 |